Reykjadals íslenskur fjárhundur - Íslenski fjárhundurinn

Íslenski fjárhundurinn

 
Íslenski fjárhundurinn hefur sterka skapgerð og er forvitinn, fjörugur,
glaðvær, barngóður, gáfaður og duglegur vinnuhundur. Hann er tryggur vinur og óþreytandi félagi í leik og starfi, hann er því tilvalinn fjölskylduhundur og vinnufélagi, bæði elskulegur og vitur. Hann er að eðlisfari mjög sjálfstæður og sumir segja að hans helsti galli sé, að hann haldi að hann sé maður.
Margir hafa tilhneigingu til að halda, að þennan kraftmikla hund þurfi að beita hörku í uppeldinu - en það er mikill misskilningur.
 
Íslenski fjárhundurinn er nefnilega mjög blíður og viðkvæmur í lund. Hann bregst því illa við ofbeldi og hörku. Helstu afleiðingar þess eru þær, að hundurinn leggur fæð á eiganda sinn, og sumir forðast samskipti við hann og annað fólk ef þeir eru beittir hörku. Þeir sem reyna slíkar aðferðir munu aldrei kynnast dýrmætustu eiginleikum í fari hans, þ.e.a.s. tryggðinni, gleðinni og leiknum.
 
 
Hvolparnir eru duglegir og fjörugir og þarfnast athygli. Íslenski fjárhundurinn er vinnuhundur sem þarf að hafa eitthvað fyrir stafni. Gefðu því hvolpinum eins mikinn tíma og hægt er meðan hann er ungur og notaðu tímann til að kenna honum og kynnast honum. Samskiptin við eigandann skipta hundinn miklu máli og líkamleg þjálfun ( sem er nauðsynleg ) kemur ekki í staðinn fyrir aðrar samvistir. Láttu því daglegar göngur ekki verða einu samskiptin við hundinn þinn.
 
Íslenskur fjárhundur er um margt merkilegur og hann hefur alla eiginleika til að verða fjörugur og skemmtilegur félagi, hann er félagslyndur og mannglöggur.
 
Ef hann treystir einhverjum og þykir vænt um hann, mun hann gegna af vilja og sannri gleði. Íslenski fjárhundurinn er vel greindur og það er auðvelt að kenna honum ef rétt er að farið. Besta leiðin til góðs árangurs er að ala hvolpinn upp með hlýju og reglusemi. Láttu hann finna að hann sé einn af fjölskyldunni.
 

Vertu sjálfum þér samkvæm(ur), leiðréttu hvolpinn af öryggi ef hann gerir rangt og hrósaðu honum þegar hann gerir rétt. Þannig getur þú eignast hamingjusaman og skemmtilegan hund.
Láttu börn aldrei sjá um uppeldið á hvolpinum, þau hafa ekki þroska eða skilning til þess, hvorki barn eða hundur munu hafa gott af þeirri tilhögun.

MUNIÐ – hvolpur/hundur er ekki leikfang, heldur lítil lifandi vera, sem setur allt sitt traust á þann sem ræður.
 
 
 
Smartmedia